«La Nascita del Violoncello» Fæðing “sellósins”


Í kvöld kl. 20:00 mun sellóleikarinn Bruno Cocset og hljóðfærasmiðurinn Charles Riché bjóða upp á dagskrá um hinar ríku hefðir hljóðfæratónlistar 17. aldar í Evrópu. Dagskráin fer fram í Þorláksbúð í Skálholti, sem er endurgerð húss í 12. aldar stíl og stendur við hlið dómkirkjunnar, og er fyrsti skipulagði viðburðurinn í þeirri umtöluðu byggingu.
Samstarf þeirra Brunos og Charles hefur leitt af sér nýja sýn á strengjahljóðfæramenningu 17. aldar. Með hliðsjón bæði af gömbufjölskyldunni og fiðlufjölskyldunni hafa þeir endurskapað og þróað “blendings”fjölskyldu, eða “viola bastarda consort” sem hefur einkenni frá báðum þessum hljóðfæraættum og varpar ljósi á þá staðreynd að á 17. öld, áður en sellóið kom til sögunnar, voru ekki eins skýr mörk á milli fiðlu- og gömbuhljóðfæranna eins og almennt er talið á okkar tímum.
Hljóðfærin sem kynnt verða eru:
- Fiðla – 17. öld « le Purcell »
- 5 strengja altfiðla « le Bettera »
- 5 strengja tenor « le Baschénis »
- 5 strengja tenorfiðla „à la bastarda“ eftir Amati
- 6 strengja bassafiðla „à la bastarda“ eftir Amati
- Selló – 17. öld « Aubade »

This entry was posted in Tónlistarhátíð á Suðurlandi. Bookmark the permalink.