Hljómeyki

Hljómeyki var stofnað árið 1974 og hefur frá upphafi verið í fremstu röð íslenskra kóra. Hópurinn starfaði fyrstu árin undir stjórn Rutar L. Magnússon og flutti þá aðallega veraldlega tónlist frá ýmsum löndum. Árið 1986 tók kórinn upp samvinnu við Sumartónleika í Skálholti og hefur síðan þá lagt megináherslu á flutning nýrrar íslenskrar tónlistar. Í Skálholti hefur Hljómeyki flutt ný verk eftir mörg helstu tónskáld landsins, svo sem Atla Ingólfsson, Elínu Gunnlaugsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur, Jón Nordal, Jórunni Viðar, Óliver Kentish, Svein Lúðvík Björnsson, Úlfar Inga Haraldsson og Þuríði Jónsdóttur. Hljómeyki hefur frumflutt yfir 50 tónverk, innlend sem erlend, og var í hópi 13 kóra um víða veröld sem pantaði og frumflutti verkið Glory and the Dream eftir Richard Rodney Bennett vorið 2001. Verkið og flutningurinn hér á landi fengu frábæra dóma.

Hljómeyki hefur einnig tekið þátt í óperuflutningi og má þar nefna Dido og Æneas eftir Purcell, Orfeus og Evridísi eftir Gluck, Orfeo eftir Monteverdi, La Clemenza di Tito eftir Mozart og Carmen eftir Bizet. Síðastnefndu verkin söng kórinn með Sinfóníuhljómsveit Íslands en Hljómeyki hefur komið reglulega fram með hljómsveitinni á undanförnum árum, síðast í Rómeó og Júlíu eftir Berlioz á Listahátíð 2012.

Hljómeyki hefur gefið út fjóra geisladiska, með verkum eftir Hjálmar H. Ragnarsson, Þorkel Sigurbjörnsson, Báru Grímsdóttur og Jón Nordal og fleiri eru í bígerð.