Skálholtskvartettinn

Skálholtskvartettinn er skipaður tónlistarmönnum sem hafa í mörg ár tekið þátt í starfi Bachsveitarinnar í Skálholti og Sumartónleika í Skálholtskirkju. Kvartettinn einbeitir sér að flutningi verka klasísska og rómantíska tímabilsins með hljóðfærum og í stíl þess tíma.
Hópurinn hóf að leika saman sem kvartett árið 1996 þegar hann lék 7 orð Krists á krossinum eftir Haydn á Skálholtshátíð og ári seinna í Frakklandi (abbaye de la Prée, Bourges). Fljótlega fór kvartettinn að gera víðreist um Evrópu á milli þess sem hann hittist í Skálholti. Árið 2004 var kvartettinum boðið að leika á árlegri Haydn hátíð í hinni mikilfenglegu Esterhaza höll í Ungverjalandi. Þar flutti kvartettin einnig Sjö orð Krists á krossinum í nálægri kirkju þar sem Haydn hafði starfað sem organisti meðfram starfi sínu hjá Esterhazy hirðinni. Í sömu ferð lék kvartettinn í tónleikaröð ráðhússins í Ljubliana í Slóveníu. Síðan hefur kvartettinn farið í margar tónleikaferðir til Hollands, Frakklands, Ítalíu og Spánar. Verkefnaskráin hefur stækkað jafnt og þétt á þessum tíma, en hljóðritunin á 7 orðum Krists er frumraun kvartettsins og er gerð í Skálholtskirkju og kom út árið 2010. Væntanleg er svo á geisladiski hljóðritun af verkum bræðranna Joseph og Michael Haydns og Luigi Boccherinis. Árið 2010 hóf kvartettinn að hljóðrita strengjaverk Schuberts fyrir bandaríska útgáfufyrirtækið Musica Omnia. Þá var strengjakvintettinn í C dúr hljóðritaður með fulltingi franska sellóleikarans Bruno Cocset og í kjölfarið voru helstu strengjakvartettar Schuberts hljóðritaðir.
Skálholtskvartettinn skipa Jaap Schröder og Rut Ingólfsdóttir fiðluleikarar, Svava Bernharðsdóttir víóluleikari og Sigurður Halldórsson sellóleikari.