Jaap Schröder

Jaap Schröder þarf vart að kynna fyrir íslenskum tónlistaráhugamönnum. Hann kom fyrst í Skálholt sumarið 1993 og hefur komið árlega síðan til tónleikahalds og hljóðritana á vegum Sumartónleika í Skálholtskirkju bæði sem einleikari og leiðari Bachsveitarinnar í Skálholti og Skálholtskvartettsins. Jaap Schröder hefur kannað ítarlega fiðlubókmenntir 17.-19. aldar og er einn helsti frumkvöðull þess að færa flutning á tónlist þess tíma í upprunalegt horf, þ.e. að tónlistin sé flutt á þann hátt sem tíðkaðist og á þau hljóðfæri sem þá voru notuð. Einn mikilvægasti þáttur í ferli hans á því sviði er starf hans sem fyrsti fiðluleikari í strengjakvartettunum Quartetto Esterhazy og Smithsonian kvartettinum, sem fluttu og hljóðrituðu stóran hluta kvartettbókmennta klassíska tímabilsins í fyrsta sinn með upprunalegum hljóðfærum, en einnig starfaði hann sem konsertmeistari hjá Concerto Amsterdam og víðar. Hann hefur stundað kennslu með ferli sínum sem einleikari og kammertónlistarmaður, m. a. í Basel, við Yale háskólann og Smithsonian stofnunina þar sem hann er heiðursprófessor. Hann hefur leikið inná ótal hljómplötur gegnum tíðina, bæði í Evrópu og Ameríku. M.a. er hann einleikari og/eða leiðari í níu hljóðritunum úr Skálholti fyrir Smekkleysu. Árið 2001 var Jaap Schröder sæmdur riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu fyrir störf sín á Íslandi. Sumarið 2006 var Jaap, ásamt eiginkonu sinni Agnesi, heiðursgestur á Skálholtshátíð þar sem bóka- og hljóðritasafni því, sem Jaap hefur ánafnað Skálholtsstað, var formlega veitt viðtaka.