Bachsveitin í Skálholti

Bachsveitin í Skálholti var stofnuð árið 1986 fyrir tilstilli Helgu Ingólfsdóttur semballeikara. Sveitin helgar sig flutningi á tónlist 17. og 18. aldar og er brautryðjandi hér á landi í að flytja barokktónlist á hljóðfæri þess tíma. Ýmsir þekktir tónlistarmenn hafa leitt sveitina, þar á meðal gömbuleikarinn Laurence Dreyfus og fiðluleikararnir Ann Wallström, Catherine Mackintosh, Stanley Ritchie, Kati Debretzeni og Jaap Schröder, sem leiddi bachsveitina í rúm tíu ár. Núverandi leiðari Bachsveitarinnar er fiðluleikarinn Peter Spissky.
Bachsveitin hefur komið sér upp allgóðum hljóðfærakosti og réði það á sínum tíma úrslitum að Þjóðhátíðarsjóður veitti í fjögur ár styrk gagngert til hljóðfærakaupa í stíl barokktímans. Þáverandi sóknarprestur í Skálholti, sr. Guðmundur Óli Ólafsson lagði tónlistarstarfinu í Skálholti bæði til kammerorgel og kammersembal sem Bachsveitin hefur notið góðs af. Jafnframt hafa áhugasamir hljóðfæraleikarar keypt sér fleiri hljóðfæri í barokkstíl. Sumarið 1997 fór Bachsveitin í sína fyrstu tónleikaferð erlendis. Haldnir voru fernir tónleikar í Frakklandi. Jaap Schröder fiðluleikari hafði veg og vanda að undirbúningi fararinnar.
Eftirfarandi geisladiskar hafa verið gefnir út með leik Bachsveitarinnar:
Verk eftir Vivaldi og Telemann, einleikari: Camilla Söderberg, leiðari: Ann Wallström (1993). Konsertar og sónata eftir Vivaldi, einleikarar úr Bachsveitinni, leiðari: Jaap Schröder (2001). Ensk leikhústónlist á 17.öld, leiðari: Jaap Schröder (2006).