Nordic Affect

Kammerhópurinn Nordic Affect var stofnaður árið 2005 með það að markmiði að miðla ríkidæmi tónlistar 17. og 18. aldar og að flytja samtímatónlist. Hópurinn er tilnefndur til Tónlistarverðlauna Norðurlandaráðs í ár. Meðlimir hópsins eiga allir að baki nám í sagnfræðilegum hljóðfæraleik og koma reglulega fram víða um Evrópu. Það að skoða þekktar stærðir út frá nýjum hliðum og halda á ókönnuð mið einkennir starf þeirra en Nordic Affect hefur með tónleikum sínum á Íslandi og víðs vegar um Evrópu flutt allt frá danstónlist 17. aldar til hinnar spennandi raftónsköpunar nútímans og hlotið fyrir afbragðs dóma. NoA hefur m.a. hljóðritað fyrir Ríkisútvarpið og Samband Evrópskra Útvarpsstöðva. Fyrsti geisladiskurinn með leik þeirra; Apocrypha eftir Huga Guðmundsson var tilnefndur til Íslensku Tónlistarverðlaunanna og hlaut Kraumsverðlaunin 2008. Á síðasta ári kom út á heimsvísu nýr geisladiskur NoA með verkum eftir Abel á vegum hollenska útgáfufyrirtækisins Brilliant Classics. Hefur diskurinn hlotið frábærar móttökur í BBC Music Magazine, Classical Music og Fanfare magazine auk tilnefningar til Íslensku Tónlistarverðlaunanna sem veitt verða í febrúar. Meðal verkefna næstu mánaða er útgáfa á nýjum geisladisk með verkum eftir íslensk kventónskáld. Listrænn stjórnandi hópsins er Halla Steinunn Stefánsdóttir.

Nordic affect

Photo: David Oldfield

Flytjendur hópsins á Sumartónleikum 2013: Halla Steinunn Stefánsdóttir og Tuomo Suni fiðluleikarar, Ian Wilson og Leo Chadburn blokkflautuleikarar, Natasha Kraemer sellóleikari og Guðrún Óskarsdóttir semballeikari. Einsöngvarar eru Hallveig Rúnarsdóttir sópran, Benedikt Kristjánsson tenór og Ágúst Ólafsson baritón.