Um Sumartónleika

Sumartónleikar í Skálholtskirkju 2013 munu standa frá 29. júní til 5. ágúst. Dagskráin verður auglýst snemma árs 2013.

Listrænn stjórnandi: Sigurður Halldórsson
siha@ismennt.is, s. 866 4600

Framkvæmdastjóri: Þorgerður Edda Hall
sumartonleikar.skalholt@gmail.com, s. 846 5264

Sími í Skálholti á meðan hátíðin stendur yfir: (+354) 486 8824

Greinagerð um tónleikasumarið 2012

Um Sumartónleika í Skálholtskirkju

Sumartónleikar í Skálholtskirkju hafa verið starfandi síðan 1975 og staðið fyrir tónleikahaldi í Skálholtsdómkirkju í 5 – 6 vikur á hverju sumri síðan. Hátíðin er sú elsta og jafnframt stærsta sinnar tegundar á landinu. Eitt helsta markmið hátíðarinnar er að stuðla að nýsköpun íslenskrar kirkjutónlistar og eru tónverkin sem frumflutt hafa verið að nálgast 200 eftir öll helstu tónskáld Íslands. Mörg verkanna hafa skipað sér sess í listalífi landsins og eru flutt reglulega víðs vegar. Einnig hafa erlend tónskáld skrifað verk fyrir Sumartónleikana. Flestir helstu tónlistarmenn og tónlistarhópar þjóðarinnar hafa komið að þessu starfi einhvern tímann á starfsferli sínum. Fyrir marga þeirra hefur hátíðin skipt sköpum sem vettvangur til þroska í túlkun bæði á gamalli og nýrri tónlist. Einnig hafa fjölmargir virtir erlendir flytjendur sótt Sumartónleika heim ár hvert og hefur hátíðin skapað sér sess alþjóðlega sem mikilvæg tónlistarhátíð á heimsvísu, sérstaklega hvað varðar flutning á tónlist 17. og 18. aldar, sem er sérsvið stofnanda Sumartónleika, Helgu Ingólfsdóttur semballeikara, en hún lést í október 2009. Það má hiklaust fullyrða að tilvist Sumartónleika hafi beint eða óbeint fætt af sér meiri þekkingu á tónlistararfi þjóðarinnar og túlkun á tónlist fyrri alda en nokkur önnur einstök stofnun á Íslandi.

Sumartónleikar hefjast í byrjun júlí ár hvert og standa framyfir Verslunarmannahelgi. Umfang hátíðarinnar vex jafnt og þétt og síðastliðið sumar voru tónleikarnir 27 alls auk þess sem fyrirlestrar, guðsþjónustur og listasmiðjur fyrir börn fóru fram.

Frá upphafi hefur það verið metnaður Sumartónleika að fjárhagur eigi ekki að koma í veg fyrir að áhugasamir sæki tónleika og fyrirlestra hátíðarinnar, eða hamli aðsókn að þeim, og er þvi ekki seldur aðgangur en frjálsum framlögum er veitt viðtaka. Fyrir utan augljósa kosti þessa fyrirkomulags fyrir þá sem ekki hafa mikið milli handanna er margt fleira sem fæst með þessu, ekki síst stóraukin umferð á svæðinu yfir hásumarið sem kemur öllum fyrirtækjarekstri í nágrenninu til góða. Hátíðin er fjölsótt meðal tónlistarunnenda, sem kunna að meta fjölbreytilegt efnisvalið sem gjarnan kemur á óvart, svo og þeirra sem annars fara nánast ekki á tónleika og hafa ekki of fyrirframmyndaðar skoðanir á hvað þeir vilja heyra, að ónefndum erlendum ferðamönnum sem sífellt fer fjölgandi. Gæði flutningsins og tónlistarinnar er mun meira í höndum flytjenda og stjórnenda hátíðarinnar með þessum hætti en ef val þeirra byggðist á vangaveltum um hversu söluvænleg tónlistin er. Það má því tvímælalaust fullyrða að Sumartónleikar í Skálholtskirkju séu orðnir mikilvæg uppeldis- og símenntunarstarfsemi almennings í tónlistarlegu tilliti, og snertiflötur við einn sögufrægasta stað landsins, sem allir hafa greiðan aðgang að.