Staðartónskáld 2014

Páll Ragnar Pálsson Eftir að hafa leikið með hljómsveitinni Maus um árabil hóf Páll tónsmíðanám við Listaháskóla Íslands árið 2004. Eftir að útskrifast þaðan þrem árum síðar flutti Páll til Tallinn þar sem hann lauk MA gráðu við Eistnesku tónlistarakademíuna árið 2009 og  doktorsgráðu frá sama skóla í upphafi árs 2014. Kennari hans í Tallinn var Helena Tulve.

Páll hefur sótt einkatíma hjá Arvo Pärt, Mirjam Tally og Erkki-Sven Tüür (Eistland), Tapio Tuomela (Finnland), Lasse Thoresen (Noregur) og James MacMillan (Skotland)

Verk Páls hafa verið flutt á tónlistarhátíðum s.s. Myrkum músíkdögum, Listahátíð í Reykjavík, Norrænum músíkdögum, KAMMER – tónlistarhátíð, Ung Nordisk Music í Helsinki, Estonian Music Days, Tallinn Music Week, Tartu Composers Festival og Icelandic Music Days í Amsterdam og Tallinn.

Árið 2013 var Nostalgia fyrir fiðlu og hljómsveit frumflutt af Unu Sveinbjarnardóttir og Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi var Ilan Volkov. Verkið var valið tónverk ársins á Íslensku tónlistarverðlaununum sama ár. Í upphafi árs 2014 var Nostalgia tekin upp af RÚV í samstarfi við Sinfóníuhljómsveit Íslands. Stjórnandi þá var Daníel Bjarnason.

Vorið 2013 vann Páll tvisvar sinnum með Kammersveit Tallinn þar sem þau frumfluttu eftir hann sitthvort verkið. Sama ár flutti strengjasveitin SKARK verk hans, Yfirráðandi kyrrð, á viðburðum og tónlistarhátíðum í Berlín, Reykjavík og Noregi. Á Myrkum músíkdögum 2014 voru tónleikar í Fríkirkjunni þar sem Caput og Tui Hirv fluttu dagskrá með verkum Páls.

Áberandi er samstarf Páls og Tui Hirv, en hún hefur frumflutt mörg verka hans. Undir merkinu Konveier hafa þau svo skipulagt tónleika fyrir tónlistarhátíðir með verkum Páls og annara tónskálda.